sunnudagur, desember 23, 2007

Jaipur á Þorláksmessu














Nokkrar myndir, ég kom þeim ekki öðruvísi inn en svona.
1 ég að borða mat sem er svona kaka með fyllingu og allskonar með meðlæti
2 og 3 týpiskar götumyndir frá Delhi
4 menn sitja og horfa yfir markað sem seldi aðallega geitur sýndist okkur í morgun mengunar þokunni sem er yfir Delhi
5 hof sem við skoðuðum, þar elda sjálboðaliðar mat sem er gefinn með frjálsu framlagi og deila til hvers sem vill, því við eigum öll að deila
6 nýr vinur okkar heimtaði að taka myndir af okkur við Taj Mahal
7 og 9 gömul kona og besti vinur Indriða í Madhogarth þorpinu
8 vinaleg kýr klóarar sér, rétt áður skildi einhver skellinöðruna sína eftir þarna og hún var á fullu að klóra sér á stýrinu.

Það styttist í jólin, ekki hér reyndar hér er allt lokað bara af því það er sunnudagur. Heilmikið hefur verið skoðað síðustu daga. Erum í hópferð um Rajastan og eins gott því við hefðum ekki komist yfir svona mikið á svona stuttum tíma öðruvísi. Bara fínasta fólk og indverskur fararstjórin sem veit heilmikið. Við flugum daginn eftir brúðkaupið til Delhi, þar er svakaleg mengun og mikið af fólki. Ekki mest spennandi borg í heimi við þurftum alveg að jafna okkur eftir að hafa skoðað India Gate minnismerkið með því að skella okkur á Barista sem er svona "Starbucks" Indlands og fá okkur kaffi og köku. Þá vorum við komin í heilmikið stuð og skelltum okkur á Connaugh Place sem er svona torg með búðum og betlurum og hundum en thar eru sko fínu búðirnar. Við skelltum okkur í Levi´s búðina þar sem buxur fást á kostakjörum, bara ekki alveg sniðin sem eru í tísku hjá okkur. En Puma klikkaði ekki og nú er team Iceland eins og við heitum í hópnum í boði Puma. En fólkið þar hefur sölumennskuna í sér eins og götusalarnir og ætlaði ekki að hleypa manni út t.d. án gallabuxna, bara af því þær pössuðu. Að passa er bara ekki það sama og að fara manni. Þær voru ljótar og girtar upp að rifbeinum. Allavega. Fyrsti dagurinn byrjaði óheyrilega snemma með lestarferð til Agra. Indverska lestarkerfið er stærsti atvinnurekandi í heimi, þar vinna ekki nema 1.6 milljón manna svo það er eflaust mikið stuð í starfsmannapartýum. En þetta er merkileg staðreynd sérstaklega þar sem ekkert af þessu fólki virðist vinna við viðhald eða að þrífa lestarnar. En sætið mitt var t.d. þannig að það bara lá niðri, sem var fínt því klukkan var ekki neitt svo ég bara svaf allan tímann. Við skoðuðum virki og allskonar gamalt dót sem ekki verður talið upp hér en aðalmálið var auðvitað Taj Mahal sem verður að segjast að er alveg magnað svona up close. Eins frá öllum hliðum en þegar maður stendur svona beint fyrir framan er það bara eins og málað á striga því það er ekkert á bakvið, það er á sem er miklu neðar. Þarna var auðvitað troðið af ferðamönnum og allsstaðar þar sem maður fer inn á svona túristastaði er leitað á hverjum einasta manni sem fer í gegn, reyndar líka í lestunum í Delhi sem eru mjög nútímalegar og flottar. Eftir Taj Mahal var farið í teppaverksmiðju, þar sem munstur eru gerð og teppin unnin eftir að þau eru ofin úti í þorpunum. Eigandinn sagðist með þessu gefa fólkinu tækifæri til að vinna og fá peninga. Ekki mikla þó því teppi sem tveir menn eru hálft ár að gera og þá á eftir að klippa þau og þvo og eftirvinna kostaði kannski 600 dollara. En það var gaman að skoða þetta allt saman.

Daginn eftir fórum við í lítið þorp að skoða yfirgefna borg, sem er svona virkisborg, þar bjuggu víst um 200.000 manns og þetta eru þvílíku útskornu mannvirkin og þar var þó aðeins búið í 16 ár að mig minnir. Um kvöldið var farið til þorps sem heitir Madhogarth og gist þar uppi í gömlum kastala eða virki sem er verið að breyta í hótel, ekki öll herbergin tilbúin en það var ótrúlega skemmtilegt samt. Þar borðuðum við í miðju rýminu og svo komu menn og spiluðu tónlist og við skelltum okkur í Rajastan dans. Fórum í gönguferð um þorpið sem var mjög gaman, þrátt fyrir að bara þessi ferðaskrifstofa fari þarna margar ferðir finnst allavega krökkunum mjög gaman að sjá ferðamenn og vilja ólm sitja fyrir á myndum, þó ekki til að fá peninga fyrir. En við sáum fólk vera að vinna og spjölluðum við það.

Í dag var svo farið til Jaipur og við verðum hér tvær nætur sem er fín tilbreyting. Skemmtilegasta hótel þó herbergin séu ekkert æði en stór garður og rólegt. Annað en þegar við röltum út á götu. Þar er eins og allsstaðar þvílík umferð og varla gangstéttar. Ef þær eru býr fólk á þeim og skítug börnin leika sér á umferðareyjunni. Fólk gerir þarfir sínar hvar sem er og við erum alltaf að sjá karla pissandi út um allt. Í borgunu er svona smá séns að ökumenn mótorhjóla séu með hjálma en farþeginn/farþegarnir sem eru oftar en ekki 2 til 3 eru það aldrei. Ekki málið að hafa börnin eða vinina eða konuna aftan á kannski með slæðu. Sáum marga í Goa með iPod á vespunum og konu með ungabarn í burðarpoka framan á sér. Við röltum aðeins út í Jaipur en það var flest lokað, en fólk út um allt og það reynir að selja manni allt, elta okkur út um allt, vilja keyra okkur, skilja ekki NO. Fátæka og útlimalausa fólkið teygir hendurnar í áttina að manni og betlar peninga, krakkarnir vilja spjalla en maður veit ekki hvort þau eru að dreifa athyglinni og vilja ræna okkur um leið. En allavega við hlupum inn á kaffihús og ákváðum að fara frekar á morgun í gönguferðina og skoða bæinn. Sáum á leiðinni endalausa bazara og búðir sem ég ætla allavega að skoða. Planið fyrir aðfangadag er bíó kl. 18 að horfa á Bollywood mynd sem er 3 klst en það er víst í góðu lagi að fara út miklu fyrr enda held ég að korter sé alveg nóg til að sjá um hvað málið snýst. Svo er sennilega jólamatur, það eru fleiri hópar hér sem vilja fara út og fagna. Flestir halda upp á jóladag svo 24. des þýðir bara partý þannig að planið er að finna indverskt diskó eftir matinn. Það verður allavega eitthvað öðruvísi. Gleðileg jól öll sömul.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Elsku Sif og Indi.
Vid óskum ykkur gledilegra Bollywood-jóla og góds nýs árs.
Vid hlökkum til ad sjá ykkur á Íslandi í jan 2008.
Bestu kvedjur
Peter, Snjólaug, Níels Oliver og Jakob.

12:24 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef séð Bollywood mynd, bara endalaus endurtekning af sama laginu finnst manni og sama fallega fólkið að syngja og dansa. Korter er sko alveg nóg til að ná konceptinu.
Annars: Gleðileg jól og vonandi hafið þið getað fagnað með góðum mat og taumlausri gleði. Hér ríkir mikil gleði yfir öllum jólasnjónum sem kom fyrst sem föl á Þorlák en bætti svo í á aðfangadagskvöld og í dag var brjálaður jólasnjór og allt svo fallegt. Sakna jóladagsgöngutúrsins okkar.
Þið eruð svo sæt og fín við Taj Mahal - svona eins og Ólafur Ragnar og Dorrit ;-) Brúðkaupsmyndin er líka flott og Sari fer þér mjög vel Sif, vera í svoleiðis oftar.
Gugga og co voru hér í gærkvöldi og bara skemmtilegt jólahald því Krílið bærir ekki á sér og ákvað að koma ekki á jólunum. Sit bara heima og bíð, vona að það komi á morgun eða hinn, nenni þessu annars ekki mikið lengur.
Jólakveðja, Hildur

3:13 e.h.  
Blogger Unknown said...

Hæ hæ og gleðileg jól!

Það er gaman að fá að fylgjast með ykkur. Bestu kveðjur frá Kefló

7:55 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

gátuð þið ekki fengið hlutverk í svona bollywood mynd??

kristján

9:50 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home