föstudagur, september 15, 2006

Budva til Piran

Jæja það bíða allir æsispenntir eftir afgangnum af ferðasögunni miklu, þið eruð eflaust spennt að vita hvort maður komst lífs af eða ekki??? Surprise surprise, ég lifði af (skýrir kannski að ég er að skrifa þetta bréf og það er með íslenskum stöfum) En þar sem frá var horfið, við vorum s.s. í Budva, síðast þegar við vorum í sambandi við umheiminn vorum við í Budva, sem er svona Benidorm þeirra Montenegro eða Serbíu búa hvað sem maður má kalla þá í dag. Allavega, síðasta daginn s.s. ætluðum við að vakna snemma en vöknuðum enn fyrr því gæinn sem leigði okkur herbergið bara vakti okkur kl. 8 og fannst þá tími til kominn að við pilluðum okkur út. Við gerðum það og ég sendi honum murder augnaráð hehe. Við vorum ekki að fara fyrr en eftir hádegi svo við bökuðum okkur á ströndinni til kl. ca 12 og tókum þá rútu og lá leiðin þá til Króatíu, nánar tiltekið til Dubrovnik.

Við gerðum okkur grein fyrir að við þyrftum að fara yfir landamæri og einhver hafði sagt okkur að við tækjum eina rútu að þeim og svo biði bara önnur hinum megin. En merkilegt nokk, það stóðst ekki frekar en flest annað. Rútan fór bara að landamærunum og þar máttum við labba bara yfir með flugfreyjutöskurnar eins og hinn almúginn í þjóðfélaginu. það var ekkert drama þarna á milli, þið sjáið hvað allt er að verða menningarlegra og menningarlegra eftir því sem vestar og norðar dregur í Evrópu. En hinum megin beið engin rúta en fullt af leigubílstjórum sem buðust til að keyra okkur í bæinn. Maður labbar kannski ekki alveg 30 km og þegar við vorum komin með glæsi svartan glænýjan Benz fyrir framan okkur og 2 ferðalanga til að deila farinu bara gátum við ekki sagt nei. Búnar að kveljast of mikið í vondum rútum og þetta var þvílíkur lúxus fannst okkur. Komum í bæinn og þar voru tvær kellur að reyna að hösla ferðamenn til að gista hjá sér og við tókum þeirra boði, annarrar sko. Þar fengum við svo fínt herbergi með suðursvölum og blómum á svölunum. Höfðum ekki mikinn tíma frekar en fyrri daginn svo við röltum beint niður í gamla bæinn sem er mjög flottur og byggður innan í stórum múrvegg, svona kínamúr stemmning fannst okkur. Þar má labba upp á veggnum sem er 2 km á lengd, við nenntum nú ekki nema helminginn reyndar því það var að fara að dimma og við vildum skoða þröngu göturnar inni í bænum líka. Ferlega nice allt úr marmara, pínulítið eins og Feneyjar, hlýtur að vera eins og að búa inni á safni að eiga heima þarna. Þarna vorum við líka allt í einu komnar á svona alvöru túristastað með japönum og ameríkönum með myndavélar á maganum (það var ég reyndar líka) En við borðuðum á sætum stað í lítilli götu. Allir staðirnir beisikklí eins með sama mat á sama verði, svona ítalskt og sjávarrétti en það var fínt. Settumst svo fyrir utan annan bar, bara stólar úti, raðað eins og í bíó og svo var bara live jazz tónlist og ekki smá nice að sitja þar og hlusta, alveg eitt mest nice kvöld ferðarinnar, ég hefði viljað láta tímann stoppa bara þar.

En hann gerði það ekki og við urðum að fara heim að sofa til að vakna fyrir næstu ferð. Daginn eftir var vaknað snemma að vanda (hver hefði trúað því upp á mig) með núna um það bil 8 moskítóbit og öll fyrir neðan hné, ekki gaman. Núna lá leiðin til Split sem er einmitt í Króatíu líka. Þetta voru nú ekki nema kannski 5 klst. Sjoppu stopp á leiðinni og svona, rútan næstum farin á undan mér í eitt skiptið þar sem ég var að kaupa þúsundasta kexpakkann í ferðinni. En ótrúlega falleg leið, keyrt með fram ströndinni allan tímann, endalausir klettar og sjórinn túrkis blár þar sem sjórinn kemur að þeim. Það eru svo litlar strendur út um allt og bara mjög fallegt. Komum til Split og þar er ekki mikið um ódýrar gistingar en sem við stóðum ráðvilltar á stöðinni var gella sem kom og bauð okkur gistingu og hringdi svo í einhverja konu sem kom og sótti okkur og 2 enska stráka. Þetta átti að vera rétt hjá en þegar hún bar búin að keyra í korter vorum við orðin frekar pirruð og nenntum ekkert að gista svona langt í burtu. Þá fór hún með okkur til baka og náði í ævagamla konu sem gat leigt okkur herbergi, við prúttuðum aðeins því hin var búin að segja okkur hvað allt væri dýrt þarna og sagði gömlu eflaust að við gætum borgað frekar mikið. Fórum með henni og það var svo sem ekki beint það hreinasta sem við sáum í ferðinni en hvað um það, tími er peningar. Beint út að skoða þennan bæ sem er líka svona gamlar þröngar götur byggðar inní múrvegg, eiginlega ekkert það merkilegt eftir síðasta staðinn. Við tókum samt langan göngutúr til að kíkja á djammið þarna, það þarf allataf að vera í rassgati og ekki einu sinni það spennandi.

Dagurinn eftir það var tekinn snemma wie immer og við settum töskunar í geymslu og tókum núna skip, bara Herjólfsstemmning núna. Það var alveg troðfullt og báturinn allt og seinn sem er kannski ekki alveg afsakanlegt í sól og logni en við fórum loksins af stað og sigldum í 2 klst og hvar vorum við þá staddar??? Jú á Hvar, sem er víst ein flottasta eyjan þarna í Adríahafi. Mikið rétt, rosa flott, jú einmitt strendur og þröngar götur og fullt af fólki í fríi. Ekki mikið um það að segja en við áttum að fara aftur til baka kl. 19.15 sem var passlegt upp á næsta ferðalag. En þegar báturinn var ekki kominn í höfn kl. 19.30 var þetta hætt að vera sniðugt, við skildum auðvitað engann en svo sagði fólkið okkur að það hefði komið tilkynning um að hann færi ekki fyrr en kl. 21 og bara NO PROBLEM, NO PROBLEM. Kannski ekki fyrir þau en þegar töskugeymslan okkar lokaði kl. 23 og við áttum að taka rútu til Sarajevo kl. 23.10 var þetta orðið big problem. Við í stresskasti inn á skrifstofuna og spurðum gaurinn þar hvað væri í gangi, hann sagði að það væri ekki bátur fyrr en kl. 21 og bara brosti svona "sorry ég veit bara ekkert hvað þið getið gert, Æ Æ" Þá komí ljós að það fór annar bátur kl. 20 frá öðru þorpi á eyjunni sem var 15 km í burtu og við gætum bara tekið strætó eða leigubíl. Við hlupum af stað og höfðum þá akkúrat 20 mín til að finna bíl og komast alla leið. Komum á bílastæði þar sem við áttum að finna bæði taxa og strætó, sem var hvergi að sjá. Ég réðst að gamalli konu sem var að auglýsa herbergi til leigu og spurði hana um leigubíl. Hún leit í kringum sig en kallaði svo á einhvern mann sem kom labbandi með kál í poka og sagði eitthvað við hann. Hann bauðst til a skutla okkur, ekkert mál, fyrir 30 Evrur. Það er kannski ekki nein milljón en 30 Evrur fyrir 15 km akstur þegar maður var bara að skutast á markað að kaupa kál er bara frekar mikill peningur, en við höfðum ekkert val og ég skil ekki ennþá af hverju Olla var akkúrat með 30 Evrur í töskunni sinni. Við af stað og alveg keyrt á milljón og loksins sáum við höfnina. Þar var risastór svona tölvuklukka og á henni stóð nákvæmlega 20:00. Alveg í slow motionn leit ég í hina áttina þar sem skipið okkar var og.............Allir vita hvernig þar er að rétt ná strætó eða einhverju þannig, maður vinkar og hann stoppar (nema í London) en þegar maður er að tala um skip sem er jafnstór og Herjólfur og landgangurinn er farinn og það er eiginlega búið að lyfta bílaprammanum alla leið upp þá er þetta að verða frekar vonlaus. En nýji vinur okkar með kálið flautaði eina og vitlaus maður og æpti á manninn sem stóð inni á bílaþilfarinu og viti menn. Hann setti prammann aftur niður og við komumst um borð. Talandi um að hurð hafi skollið nærri hælum, þetta var bara stærsta HURÐIN sem skall nærri tánum á okkur. 2 klst sigling, við höfðum planað að fara í sturtu á ströndinni og skipta um föt þar því við sáum ekki fram á að komast í sturtu fyrr en eftir 2 nætur vegna ferðalaga. Þetta plan klikkaði, því við rétt náðum í töskurnar og það er merkilegt hvað svona blautklútar geta gert mikið gang, aldrei klikka á þeim þegar lagst er í ferðalög. Okkur fannst við ægilega hreinar og fínar og mættum í rútuna. Hafi rútan daginn áður verið fín, þá var þessi betri með mega loftkælingu, svo mikilli að við vorum að frjósa þegar leið á nóttina.

Við héldum að við kæmum til Sarajevo ca kl. 7 um morgunn og ætluðum bara að rölta um bæinn og fara svo um kvöldið áfram. En við sem sagt vorum mættar til Sarajevo kl. 5 á sunnudags morgni og hvað gerir maður þá. Maður fer næstum að grenja úr þreytu, það er nefnilega ekki hægt að láta fara vel um sig í svona rútu og eyrnatappar virka einhvern veginn ekki heldur, alveg merkilegt. Þar var Ivanka mætt og hún vildi bjóða okkur herbergi. Hvorki hún sjálf né staðsetningin var girnileg og hún skildi okkur engan veginn, að við tímdum ekki að borga mikið þar sem við færum um kvöldið og gistum eiginlega enga nótt þótt við ætluðum að leggja okkur í smá stund. Hún var mikið að tala um japana sem var að fara frá henni, ferðalangur sko svo af einhverri rælni ákvað ég að fara og spurja hann hvernig gistingin hefði verið. Hann talaði nú ekki frábæra ensku en náði þó að segja mer "cheap, far away from town" en bætti svo við að hann hefði vaknað allur i skordýrabitum og það væru ekki moskítóflugur sem hefðu bitið hann heldur maurar í rúminu svo hann mælti ekki með því. Ég hljóp og sagði Ollu það, við ákváðum að stinga Ivönku af en þá kom önnur kona sem vildi hjálpa okkur (ótrúlegt hvað það gerist alltaf) vinur hennar leigubílstjóri gæti bara farið með okkur á ódýrasta hótelið í bænum. Við héldum að það væri í bókinni okkar og fórum þangað, það var þá allt annað og fínna og ég segi ekki dýrt en kannski aðeins dýara en við vildum borga fyrir enga nótt. Röltum til að finna pension sem við vorum með en byggingin sem hefði verið með rétta húsnúmerinu var bara horfin svo við fórum til baka og ákváðum að splæsa þessu bara á okkur, nota sturtuna, fá morgunmat og sofa. Gerðum það, í þessari röð. Þá var komin ný gella á vakt í lobbýinu og hún sagði að við þyrftum ekkert að borga fullt verð þar sem við ætluðum ekkert að gista hehehe. En við röltum um borgina, margir búnir að var okkur við og segja að við ættum ekkert að fara til Sarajevo, veit ekki af hverju en við vorum bara þvílíkt impressed, falleg borg og almennilegt fólk, rosa rólegt og við duttum alveg í minjagripabúðirnar, sem við höfuðum ekkert gert hingað til. Keypti mér svona handskreytta sprengju sem hafði verið sprengd þarna, mjög smekklegt. En já ég hefði alveg viljað vera lengur, reyndar hermenn út um allt, en allt í goodý. Það var líka miklu meira sprengt fyrir utan miðborgina og er búið að vera að gera við skemmdir í nokkur ár svo við sáum kannski ekki það versta. Kvöldið eftir var förinni svo heitið aftur til Ljubljana í Slóveníu, enn ein næturrúta í viðbót, alltaf þegar maður er alveg að sofan er pissustopp eða landamæri eða vesen. Við fórum sko í geng um Króatíu svo við komum í raun þangað í 3. skipti, en það voru 2 landamæri sem þýðir 4 stopp. Undir það síðasta var ég svo þreytt að ég sat bara með handklæði yfir hausnum og eyrnatappa og rétti verðinum passann minn, gat allavega ekki opnað augun. Komumst Ljubljana eftir 12 klst, þá var klst bið í næstu rútu sem tók 3 tíma en kom okkur alla leið til Piran sem er æðislegur strandabær. Fundum fljótt gistingu og ekkert vesen beint á ströndina og þar var legið í sólbaði, farið út að borða. Já þjónninn þar var svo dónlaegur og var alveg sama þó Olla benti honum á svart hár í spaghettiinu sínu að þegar hann var að gefa okkur til baka fannst honum ægilega mikið mál að við borguðum með 5000 SIT (x 0.38 fyrir IKR) þó að við værum að borga 3300. Að hann ruglaðist alveg, bað um 300 í viðbót, gaf okkur 2000 til baka en tók aldrei 5000 svo við borguðum hva svona 140 kr ca f. matinn og okkur var alveg sama. Þá var komið mega þrumuveður og við sátum og horfðum á það ekki smá flott. Ætluðum að vakna snemma til að sjá fræga dropasteinshella en núna bara sagði líkaminn nei, og við sváfum yfir okkur, fórum því í sólbaði í staðinn og fórum eftir hádegi.

Það voru þvílíkar tilfæringar, það er aldrei bara rúta sem fert beint á staðinn, ekki einu sinni þetta. Við redduðum okkur þó og löbbuðum í túristahópi 3 km leið í gegnum hellana sem eru ekki smá flottir, sums staðar yfir 100 metra lofhæð og steinar uppúr og niðrúr. Komumst til baka og fórum út að borða og keyptum okkur kokkteil aldrei þess vant, í ferðinni miklu sem reynist bara vera hálfgerð meðferð, það var bara ekki tími fyrir djamm, hver hefði trúað því. Ég bara svo varð að fá einn ís í viðbót, skil ekki hvað er verið að tala um ítalskan ís alltaf, hann er miklu betri þarna og ég er búin að borða skammtinn minn fram að jólum held ég. Það var eftir að við fórum á þennan fína veitingstað og ég ákvað að flippa í sjávarréttunum og vissi ekki alveg hvað ég pantaði og fékk fullan disk af stuffuðum smokkfiski og pínulitlum kolkröbbum. Komum okkur svo út á flugvöll kl. 6.45 morguninn efttir, ekki af því flugið væri svona snemma heldur af því annars var bara rúta í hádeginu, merkilega illa skipulagt. Flogið frá þessum líka mega cosmo flugvelli í Trieste á Ítalíu, hann var svo cosmo að það var hægt að velja þegar maður fór á klósettið hvort það var klósett eða bara gat í gólfinu, eins og by the way var mjög víða á þessu ferðalagi. Komumst til baka til London með allt dótið, viðbjóðslega skítugt, þvottavélin malar hérna á bak við mig. En það er örugglega enginn ennþá að lesa, það er allt í lagi, mig langaði líka til að eiga ferðasöguna sjálf, skrifa svo helvíti illa að ég kæmist örugglega beint inn á 3. ár í læknisfræði, svo ég get kannski lesið þetta eftir nokkur ár.

En helvíti fín ferð, margir staðir sem ég myndi ekkert endilega fara á aftur en þannig er það nú oft. Allavega búin að læra það að þessi fyrrum Júgóslavíulönd eru svona frekar lík oft. Fólkið í flestum löndunum af þeim fáu sem vildu tala við okkur er yfirleitt ekki svo vel við hin löndin og skilur ekki af hverju við vorum að fara þangað því þeirra land er alltaf best og fólkið fallegast. Það var samt fallegast í Slóveníu reyndar (fólkið sko) Einnig lærðum við að fólk yfirleitt er allt af vilja gert að hjálpa manni en veit yfirleitt ekkert, það segir að það séu ekki rútur þegar þær eru eða það kosti ca 500 í hellaferðina þegar það kostaði 2000, jafnvel þó það vinni hjá túrist information. Ég lærði líka að ég get borðað ís allavega 3 á dag. Maður getur lifað af 14 klst ferðalag í rútu og haft ekkert nema kex að borða alla leiðin, ískex virðist einmitt vera aðal hittið í þessum löndum en það er bara aldrei borðað með ís. En það sem við lærðum eiginlega best í ferðinni er að það er alveg sama hversu miklum vanda maður telur sig vera í, það kemur alltaf einhver labbandi, vill vera vinur þinn og hjálpar þér, það reddast alltaf all einhvernveginn. Þá er þessu bakpoka... ég meina flugfreyjutöskuferðalagi lokið. Þakka þeim sem hlýddu!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home